Bjartur NK í höfn. Ljósm. Hákon ViðarssonUpp úr hádegi í dag kom ísfisktogarinn Bjartur til hafnar í Neskaupstað að aflokinni heldur erfiðri sjóferð. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri sagði að þrennt hefði einkennt veiðiferðina; lítið fiskirí, bræla og bilirí. „Stundum er lífið svona til sjós, það er ekki alltaf dans á rósum“, sagði Steinþór. „Það var heldur lélegt fiskirí framan af og veðrið var bölvað. Við þurftum til dæmis að halda sjó samfellt í eina 18 tíma. Þegar við svo loksins vorum komnir í þokkalegan fisk bilaði vélin í skipinu. Vélin tók að hita sig og  þá var ekki annað að gera en að halda til lands og þangað var siglt á hálfum hraða. Þrátt fyrir óhagstætt veður og fiskileysi lengst af náðum við einum 70 tonnum og er uppistaða aflans þorskur og ufsi. Nú verður vélin skoðuð og vonandi finna menn fljótt út úr því hvað er að svo við getum haldið til veiða á ný hressir í bragði“, sagði Steinþór að lokum.