Bjartur NK kom nýr í fyrsta sinn til heimahafnar 13.maí 1965. Ljósm. Guðmundur SveinssonBjartur NK kom nýr í fyrsta sinn til heimahafnar 13.maí 1965. Ljósm. Guðmundur SveinssonÁ árum áður þótti tilhlýðilegt að skáld og hagyrðingar settust á bak skáldafáknum þegar nýtt skip kom í fyrsta sinn til heimahafnar. Einn þessara hagyrðinga var Valdimar Eyjólfsson í Neskaupstað. Fyrsta skipið sem Síldarvinnslan eignaðist var Barði sem kom nýr  til heimahafnar 5. mars árið 1965. Einungis rúmum tveimur mánuðum síðar kom næsta skip sem Síldarvinnslan hafði látið smíða; Bjartur. Fljótlega eftir komu Bjarts birtist eftirfarandi pistill frá Valdimar Eyjólfssyni í vikublaðinu Austurlandi:
 
Hinn 13. þ.m. kom skipið Bjartur NK 121, hið síðara skip, sem Síldarvinnslan hf. keypti frá Austur-Þýskalandi, til Neskaupstaðar.
 
Þegar Barði, fyrra skipið kom, var ég veikur og gat ekki skoðað hann, en var hressari þegar hið síðara skip kom og brá ég mér þá um borð. Ég fór fyrst inn í stjórnklefann (stýrishúsið). Þar stóð Jóhann Sigurðsson, tollþjónn, vakt og ruddi hann mér strax braut inn í skipstjóraklefann. Þar voru fyrir fjórir menn og var mér þar vel tekið. Skipstjóri, Filip Höskuldsson, bauð mér strax sæti. Hinir aðrir, er þar voru, Guðgeir Jónsson, bílstjóri, Kristinn Sigurðsson, forstjóri, og Högni Jónasson, bílstjóri, báðu mig um að gera vísu í tilefni af komu skipsins, en það kom enginn andi yfir mig þá og því varð engin vísa. En til þess að gera þeim einhverja úrlausn bið ég Austurland fyrir vísur, sem komu í hug mér þegar heim kom og sendi ég þeim þær hér með:
 
Bjartur kom í heimahöfn
hlaðinn bestu kostum,
allvel fær í úfna dröfn,
illviðrum og frostum.
 
Sem sagt fær í flestan sjó
farkostur hinn besti.
Honum gifta gefist nóg
og gæfa í veganesti.
 
Líkt er það með Barða og Bjart,
báðir í nýjum flíkum,
útlitið er ekki svart
með útgerðina á slíkum.