DSC04636 2

Bjartur NK siglir um Norðfjörð áður en hann sigldi endanlega á brott í gærkvöldi. Ljósm: Sigurður Steinn Einarsson

Ísfisktogarinn Bjartur NK kom úr sinni síðustu veiðiferð hér við land sl. sunnudag. Afli skipsins var 101 tonn og var þorskur uppistaðan. Í gærkvöldi sigldi Bjartur síðan út Norðfjörð í hinsta sinn. Hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar í liðlega fjörutíu og þrjú ár en verður afhentur írönskum kaupanda í Reykjavík nk. mánudag.

                Skuttogarinn Bjartur NK kom nýr til Neskaupstaðar 2. mars 1973. Þá hafði hann lokið lengstu samfelldu siglingu norðfirsks skips fyrr og síðar. Bjartur var smíðaður í Niigata í Japan og tók siglingin þaðan til heimahafnar í Neskaupstað 49 sólarhringa en vegalengdin var um 13.150 sjómílur. Á leiðinni kom Bjartur við í Honolulu á Hawaii-eyjum og Balboa við Panamaskurðinn.

bjartur i skipasmidastodinni

Bjartur NK í smíðum í Niigata-skipasmíðastöðinni. Ljósm: Magni Kristjánsson

                Stjórn Síldarvinnslunnar tók ákvörðun um að láta smíða Bjart seint á árinu 1971 en þá hafði fengist nokkur reynsla af útgerð skuttogarans Barða NK sem fyrirtækið festi kaup á árið 1970. Í upphafi var Bjarti ætlað að leysa Barða af hólmi en eftir að smíði togarans hófst var ákveðið að gera báða togarana út og reyndar urðu togararnir í eigu fyrirtækisins þrír þegar Birtingur NK bættist í flotann árið 1977.

                Alvöru skuttogaravæðing á Íslandi hófst árið 1971 og var þá ákveðið að láta smíða tíu togara í Japan. Síldarvinnslan festi kaup á einu þessara skipa og var það smíðað í Niigata ásamt þremur öðrum en sex skipanna voru smíðuð í Muroran.

                Hinn 25. október árið 1972 var togara Síldarvinnslunnar hleypt af stokkunum í Niigata-skipasmíðastöðinni og var honum þá gefið nafnið Bjartur. Síldarvinnslan fékk skipið afhent 12. janúar 1973 og daginn eftir var lagt af stað í hina löngu siglingu til Íslands. Klukkan 8.30 að morgni föstudagsins 2. mars sigldi Bjartur fánum prýddur inn Norðfjörð og var honum vel fagnað.

bjartur kemur heim 1973

Bjartur NK kemur nýr til Neskaupstaðar 2. mars 1973. Ljósm: Guðmundur Sveinsson

                Bjartur þótti afar vel búið skip og voru miklar vonir við það bundnar. Stærð skipsins var 461 brúttótonn og aðalvélin var 2000 hestöfl. Allar vélar og tækjabúnaður um borð var japanskrar gerðar ef undan er skilin talstöðin sem var dönsk smíð.

                Útgerð Bjarts hefur gengið vel frá upphafi og ekki hefur þótt brýn ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Aðalvélin var endurnýjuð árið 1984 og árið 2004 hélt Bjartur til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldi var sinnt. Þá var skipt um hluta spilbúnaðar, plötur í skutrennu og víðar endurnýjaðar og unnið að ýmsum öðrum lagfæringum. Að öðru leyti hefur reglubundið viðhald verið látið nægja.

                Afli Bjarts á þeim rúmlega fjörutíu og þremur árum sem hann hefur verið í eigu Síldarvinnslunnar er 142.730 tonn. Ársafli skipsins var mestur árið 1981 eða 4.568 tonn en alls hefur ársaflinn sjö sinnum farið yfir 4.000 tonn. Minnstur var ársafli skipsins árið 2001, 1.953 tonn, en verulegan hluta þess árs var Bjartur í slipp á Akureyri í kjölfar eldsvoða um borð. Miðað við núverandi fiskverð má áætla að aflaverðmæti Bjarts á þessu liðlega fjörutíu og þriggja ára tímabili nemi um 29 milljörðum króna.

Capture 2

                Ekkert skip hefur tekið jafn oft þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar og Bjartur. Í marsmánuði sl. lauk hann sínu 26. ralli.

                Magni Kristjánsson var fyrsti skipstjórinn á Bjarti og sigldi hann skipinu heim frá Japan. Magni var á Bjarti á árunum 1973-1976. Þegar Bjartur hafði verið gerður út í fjörutíu ár sagði Magni eftirfarandi: „Það fiskaðist strax vel á Bjart  og hann hefur ávallt verið hagkvæmt skip. Það var vandað til smíði hans og því entist allt ákaflega vel um borð. Það fer ekkert á milli mála að þessi japanski togari hefur verið einstaklega farsælt skip.“

                Sveinn Benediktsson tók við skipstjórn á Bjarti árið 1976 og gegndi starfinu til ársins 1991. Að mati Sveins er Bjartur mikið gæðaskip. „Bjartur er traust og gott skip. Ég var óskaplega ánægður með Bjart. Japanska vélin sem upphaflega var í honum var að vísu heldur lítil og það var til bóta að fá nýja vél  árið 1984. Þetta var afar gott skip að vera á,“ segir Sveinn.

                Eftirmaður Sveins í skipstjórastóli var Birgir Sigurjónsson og stýrði hann skipinu til ársins 2006. Birgir segist bera hlýjar tilfinningar til skipsins. „Bjartur er frábært skip í alla staði. Ég var á Bjarti í 33 ár sem stýrimaður og skipstjóri og mér þykir vænt um þetta skip. Mér leið afar vel þarna um borð. Það er eftirsjá að Bjarti en tíminn líður og endurnýjunar er þörf. Við það þurfa allir að sætta sig,“ segir Birgir.

                Jón Hlífar Aðalsteinsson var skipstjóri á Bjarti á árunum 2006-2011. Hann á ljúfar minningar frá veru sinni á skipinu. „Það var mjög fínt að vera á Bjarti. Skipið fór svo vel með mann. Bjartur er gott skip og jafnan aflaðist vel á það. Segja má að Bjartur hafi fyllilega staðið yngri skipum snúning og endurminningarnar frá Bjartsárunum eru svo sannarlega góðar,“ sagði Jón Hlífar.

                Steinþór Hálfdanarson tók við skipstjórn á Bjarti þegar Jón Hlífar lét af störfum og er hann síðasti skipstjórinn á skipinu áður en það hverfur af landi brott. Það er Steinþór sem siglir skipinu til Reykjavíkur þar sem nýr eigandi tekur við því. „Bjartur er afar gott sjóskip og fer vel með áhöfn. Miðað við stærð er hann sjóborg. Það hefur fiskast vel á skipið alla tíð og mönnum hefur líkað vel að vera á því. Margir hafa verið í áhöfninni um áratuga skeið og ekki virst hafa haft nokkurn áhuga á að skipta um pláss. Auðvitað er Bjartur barn síns tíma en hann skilaði sínu fram í síðasta túr. Vissulega er endurnýjunar þörf en margir muna sakna Bjarts því hann hefur þjónað okkur einstaklega vel,“ segir Steinþór.