Bjartur juli 2014 HV

Bjartur NK. Ljósm: Hákon Ernuson

Ísfisktogarinn Bjartur landaði 58 tonnum á Seyðisfirði í gærmorgun. Aflinn fór til vinnslu í fiskvinnslustöð Gullbergs. Um var að ræða blandaðan afla; þorsk, karfa og ufsa. Að sögn Jóhanns Arnar Jóhannssonar skipstjóra er heldur dauft yfir fiskiríi hér eystra um þessar mundir en áhersla var lögð á að veiða ufsa í veiðiferðinni. „Það er lítinn ufsa að hafa á okkar hefðbundnu slóðum hér eystra,“ sagði Jóhann. „Við vorum í Berufjarðarál og á Þórsbanka og ufsinn lét varla sjá sig þarna.“

Gert er ráð fyrir að Bjartur haldi til veiða á ný í kvöld og þá verði farið vestur fyrir land í þeirri von að ufsinn gefi sig þar. Ráðgert er að skipið taki tvo ufsatúra en síðan fari áhöfnin í frí.

Ísfisktogarinn Gullver landaði á Seyðisfirði á föstudag og er áhöfn hans komin í vel þegið sumarfrí. Starfsmenn fiskvinnslustöðvar Gullbergs munu síðan hefja sitt sumarfrí  næstkomandi föstudag og mun vinnsla þar ekki hefjast á ný fyrr en eftir verslunarmannahelgi.