Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum brælutúr. Aflinn er um 65 tonn og er uppistaða hans þorskur. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri segir að helst hafi verið  veitt á Grunnfætinum og Litladýpi en undir lok túrsins hafi verið farið norður undir Reyðarfjarðardýpi. „Veðrið var hundleiðinlegt,“ sagði Steinþór, „bölvaðar umhleypingar og leiðindi“. Að sögn skipstjórans er gert ráð fyrir að Bjartur haldi á ný til veiða um hádegi á morgun og landi næstkomandi þriðjudag. Það verður væntanlega síðasti túr skipsins fyrir jól.

Landað úr Bjarti NK. Ljósm. Hákon Ernuson