Löndun úr Bjarti NK. Ljósm: Hákon Ernuson
 
Ísfisktogarinn Bjartur kom með fullfermi, 100 tonn, til löndunar í Neskaupstað á sunnudagskvöld. Uppistaða aflans var þorskur, en einnig var dálítið af ufsa og karfa. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri sagði í samtali við heimasíðuna að aflinn hafi fengist á Lónsdýpi, í Berufjarðarál og á Fætinum. „Þessi veiðiferð gekk þokkalega vel,“ sagði Steinþór. „Það var góð þorskveiði í einn dag en svo dró úr henni. Það hefði mátt ganga betur að ná ufsanum og karfanum. Loðnan er seint á ferðinni í ár og það vantar æti á þessum slóðum núna, það held ég að sé ljóst,“ sagði Steinþór að lokum.
 
Bjartur heldur á ný til veiða í kvöld.