Joi

Jóhannes Sveinbjörnsson verkstjóri búinn að gera Bjart kláran í síðustu veiðiferðina hér við land. Ljósm: Guðjón B. Magnússon

                Bjartur NK hélt til veiða í gærmorgun. Er þetta síðasta veiðiferðin sem skipið heldur í hér við land, en ráðgert er að afhenda hann írönskum kaupanda í Reykjavík um næstu mánaðamót. Það ríkti sérstök stemmning þegar skipið var búið í veiðiferðina en Bjartur hefur verið gerður farsællega út frá Neskaupstað frá árinu 1973. Bjartur er einn af hinum svonefndu Japanstogurum og var hann smíðaður fyrir Síldarvinnsluna í Niigata, hleypt af stokkunum þar hinn 25. október 1972 og afhentur Síldarvinnslunni 12. janúar 1973. Til heimahafnar í Neskaupstað kom hann í fyrsta sinn 2. mars 1973 eða fyrir liðlega fjörutíu og þremur árum.

Steini á Mel

Steinþór Hálfdanarson skipstjóri í brúnni á Bjarti fyrir síðustu veiðiferðina. Ljósm: Guðjón B. Magnússon

                Skipstjóri á Bjarti í þessari síðustu veiðiferð er  Steinþór Hálfdanarson. Heimasíðan hafði samband við hann í morgun en þá var verið að toga í Berufjarðarál. „Hér er blessuð blíðan og algert stafalogn. Það er virkilega gott að taka síðasta túrinn á Bjarti í svona veðri. Við áætlum að koma í land um hádegi á sunnudag og þá kveðja menn um borð skipið með söknuði,“ sagði Steinþór.

Bjartur 28.8.16

Bjartur siglir út Norðfjörð í sína síðustu veiðiferð hér við land. Ljósm: Guðbjón B. Magnússon

                Sérstaklega verður fjallað um útgerðarsögu Bjarts hér á heimasíðunni þegar hann siglir út Norðfjörð í hinsta sinn á vit nýrra ævintýra.