Trollið tekið á Bjarti NK. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonTrollið tekið á Bjarti NK. Ljósm. Ísak Fannar SigurðssonSíðdegis í dag eða í kvöld heldur togarinn Bjartur NK í sitt 25. togararall. Enginn togari hefur jafn oft tekið þátt í ralli, en Ljósafell SU kemur næst og er að hefja sitt 22. rall. Togararall hefur farið fram á hverju ári frá 1985 og er það mikilvægur þáttur í árlegu mati á stofnstærð botnfiska við landið. Hafrannsóknastofnun leitaði eftir tilboðum til þátttöku skipa í rallinu og varð niðurstaðan sú að auk Bjarts og Ljósafells munu hafrannsóknaskipin tvö, Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson, annast rallið að þessu sinni. Löngum hafa svonefndir Japanstogarar verið leigðir til þátttöku í rallinu en Bjartur og Ljósafell eru einmitt af þeirri gerð. Árin 1985-1995 voru fimm togarar teknir á leigu til að sinna rallverkefninu, 1996-2006 voru þeir fjórir og árin 2007-2013 þrír auk rannsóknaskipa. Í fyrra og í ár eru togararnir hins vegar tveir eins og fyrr greinir auk rannsóknaskipanna. Bjartur tók ekki þátt í rallinu í fyrra.
 
Að sögn Jóhanns Arnar Jóhannssonar  skipstjóra á Bjarti mun skipið toga á 184 fyrirfram ákveðnum togstöðvum á svæðinu frá Hornafirði að Eyjafirði.  Ljósafell mun síðan toga úti fyrir suðurströndinni að Snæfellsnesi, Árni Friðriksson frá Snæfellsnesi að Horni og Bjarni Sæmundsson frá Horni að Eyjafirði. Gert er ráð fyrir að verkefnið taki 16-18 daga að sögn Jóhanns og Bjartur komi til löndunar einu sinni á meðan á rallinu stendur.