Bjartur NK er á leiðinni til Íran í ágústmánuði. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonBjartur NK er á leiðinni til Íran í ágústmánuði. Ljósm. Sigurður Steinn EinarssonÍsfisktogarinn Bjartur NK hefur verið seldur til Íran en ráðgert er að afhenda skipið nýjum eigendum í  ágústmánuði næstkomandi.
 
Bjartur var smíðaður í Japan og hefur alla tíð verið í eigu Síldarvinnslunnar. Honum var hleypt af stokkunum í skipasmíðastöð í Niigata hinn 25. október árið 1972 og afhentur Síldarvinnslunni 12. janúar árið 1973. Siglingin frá Niigata til Neskaupstaðar tók 49 sólarhringa og var vegalengdin 13.150 sjómílur. Á siglingunni heim var komið við í Honolulu á Hawaii og Balboa við Panamaskurðinn.
 
Bjartur sigldi í fyrsta sinn inn Norðfjörð klukkan 8.30 að morgni föstudagsins 2. mars 1973. Skipið þótti afar vel búið og hið glæsilegasta í alla staði. Stærð skipsins er 461 tonn og var það í upphafi búið 2000 hestafla aðalvél. Allur tækjabúnaður í skipinu var japanskur  ef undan er skilin talstöðin sem var af danskri gerð.
 
Útgerð Bjarts hefur gengið vel frá upphafi og hefur ekki þótt vera ástæða til að gera miklar breytingar á skipinu. Árið 1984 var þó ný 2.413 hestafla aðalvél sett í það og árið 2004 hélt Bjartur til Póllands þar sem meiriháttar viðhaldi var sinnt. Heildarafli Bjarts frá því að hann hóf veiðar árið 1973 er rúmlega 140 þúsund tonn. Miðað við núverandi fiskverð má gera ráð fyrir að aflaverðmæti skipsins á þessum tíma nemi hátt í 30 milljörðum króna.
 
Bjartur hefur tekið þátt í togararalli Hafrannsóknastofnunar og hefur ekkert annað skip jafn oft tekið þátt í því. Í marsmánuði sl. lauk Bjartur þátttöku í sínu 26. ralli.  
 
Nánar verður fjallað um sögu Bjarts hér á heimasíðunni þegar kemur að því að hann hverfur á braut til fjarlægra slóða.