Gullversmenn namskeid

Áhöfn Gullvers NS hlýðir á fyrirlestur á björgunarnámskeiðinu.  Ljósm. Guðjón B. Magnússon

                Sl. miðvikudag og fimmtudag fór fram björgunarnámskeið um borð í Gullver NS þar sem skipið lá í höfn á Seyðisfirði. Alls sóttu 24 Gullversmenn námskeiðið. Tveir frá Slysavarnaskóla sjómanna, þeir Bjarni Þorbergsson og Gísli Birgir Sigurðarson, önnuðust kennslu á námskeiðinu auk þess sem Guðjón B. Magnússon, öryggisstjóri Síldarvinnslunnar, kom að framkvæmd þess. Heimasíðan hafði samband við Rúnar L. Gunnarsson skipstjóra á Gullver og spurði hvernig námskeiðið hefði heppnast.

Gullversmennnamskeid 2

Einn liður námskeiðsins var að flytja mann í börum um borð í skipinu.  Ljósm. Gísli Birgir Sigurðarson.

„Námskeiðið heppnaðist afar vel í alla staði og ég held að öll áhöfnin sé mjög ánægð með þetta framtak. Stundum er einn og einn úr áhöfninni að fara suður og sækja þetta námskeið, sem skylda er að taka á fimm ára fresti. Það er hins vegar í alla staði betra að fá leiðbeinendurna hingað austur þannig að öll áhöfnin geti tekið námskeiðið saman um borð í eigin skipi. Slíkt fyrirkomulag skilar miklu meiru. Þarna var farið í gegnum alla helstu þætti öryggismálanna eins og til dæmis nýliðafræðslu, notkun flotbúninga, endurlífgun, viðbrögð við eldi um borð, flutning á slösuðum manni um borð og meðferð allra helstu björgunartækja. Þetta var í einu orði sagt lærdómsríkt og ég held að öll áhöfnin sé sammála um að námskeiðið hafi orðið að mjög miklu gagni,“ segir Rúnar. 

 

20191017 094813

Flotbúningar voru reyndir á námskeiðinu. Ljósm. Gísli Birgir Sigurðarson.