Frystitogarinn Blængur NK sigldi inn á Norðfjörð í morgun að aflokinni veiðiferð í úthafskarfa á Reykjaneshrygg. Áhöfnin mun þrífa skipið hátt og lágt en veiðiferðinni mun ljúka formlega á fimmtudagsmorgun. Úthafskarfaveiðin var afar slök en nk. mánudag mun skipið væntanlega halda til veiða í Barentshafið og gera menn sér vonir um að veiðiferð þangað muni bæta upp aflaleysið á Reykjaneshryggnum. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra á Blængi í gær og spurði nánari frétta. „Við lögðum af stað í úthafið hinn 7. maí og vorum þar að veiðum í 12 daga. Aflinn var innan við 150 tonn og því fer fjarri að það geti talist viðunandi. Svona túrar eru erfiðir. Þarna hafa átt sér stað miklar breytingar á ekki svo löngum tíma. Fyrir nokkrum árum veiddu menn þarna tugi þúsunda tonna af úthafskarfa en þeir tímar virðast vera liðnir, allavega virtist svo vera á meðan við vorum á miðunum. Annars voru fréttir af góðri veiði þegar við lögðum af stað í veiðiferðina en hún datt algjörlega niður. Eina íslenska skipið sem var þarna að veiðum ásamt okkur var Vigri RE en hann stoppaði stutt. Þarna var síðan einn Þjóðverji og einn Norðmaður og þó nokkrir Rússar. Rússarnir koma þarna hvert ár með sinn flota og eru þarna að fiska með mjög stórum trollum, mun stærri en við notum. Eftir að við fórum úr úthafinu höfum við veitt í þrjá og hálfan sólarhring við landið og lagt áherslu á karfa, ufsa og nú síðast grálúðu. Við fengum einn góðan sólarhring í karfa í Skeiðarárdýpinu en það hefur verið lítið um ufsa og karfa út af Austfjörðum. Menn geta hins vegar alls staðar fengið þorsk en þorskveiði hefur ekki verið á dagskrá hjá okkur. Næsta verkefni hjá okkur er Barentshafið og stefnan verður tekin þangað strax eftir sjómannadag. Þar á að veiða þorsk og vonandi mun það ganga vel. Við þurfum góðan túr til að hressa okkur við eftir úthafskarfann á Reykjaneshryggnum,“ segir Theodór.