Hluti Blængsmanna og starfsfólks fiskiðjuvers á lyftara- og krananámskeiði. Ljósm. Hákon ErnusonHluti Blængsmanna og starfsfólks fiskiðjuvers á lyftara- og krananámskeiði. Ljósm. Hákon ErnusonFrystitogarinn Blængur NK hefur verið á Akureyri frá því í byrjun ágúst en þar vinna starfsmenn Slippsins að því að koma fyrir nýjum búnaði á vinnsludekki skipsins. Að framkvæmdum loknum mun Blængur geta lagt stund á ísfiskveiðar ásamt því að geta fryst aflann. Skipið verður útbúið til að geyma frystar afurðir í lest á brettum en slíkt fyrirkomulag leiðir til mikillar vinnuhagræðingar og flýtir fyrir löndun. Fiskikössunum er raðað á brettin á vinnsludekkinu og er brettunum síðan staflað í lestinni með lyftara.
 
Framkvæmdir við Blæng hafa nokkuð dregist á langinn og er nú gert ráð fyrir að skipið geti hafið veiðar snemma í desembermánuði.
 
Á meðan framkvæmdirnar við Blæng hafa staðið yfir hefur tíminn verið nýttur til námskeiðahalds fyrir áhöfnina ásamt því að hún hefur sótt fræðslufundi um ýmis málefni. Í síðustu viku fór til dæmis  fram námskeið fyrir minni vinnuvélar (lyftara- og krananámskeið) í umsjá Vinnueftirlitsins. Auk Blængsmanna sótti starfsfólk fiskiðjuvers og fiskimjölsverksmiðju í Neskaupstað námskeiðið og útskrifuðust um 20 manns. Áður hafði áhöfnin á Blængi sótt kynningarfundi um nýja starfsmannastefnu Síldarvinnslunnar og öryggisnámskeið. Boðið verður upp á svonefnt sápunámskeið fyrir áhöfnina en þá mun fulltrúi frá OLÍS fara yfir notkun á þeim hreinsiefnum sem notuð eru um borð í skipinu og eins hefur verið kannað að bjóða upp á námskeið í vírasplæsningum í samvinnu við Fjarðanet.