Blængur NK veiðir nú í BarentshafinuBlængur NK veiðir nú í BarentshafinuFrystitogarinn Blængur NK lagði af stað frá Neskaupstað til veiða í Barentshafinu hinn 8. júní sl. Skipið hóf síðan veiðar 12. júní og sló heimasíðan á þráðinn til Theodórs Haraldssonar skipstjóra til að fá fréttir af gangi þeirra. „Það hefur gengið afar vel nánast allan tímann. Við hófum veiðarnar á Skolpenbanka og veiddum vel fyrstu tvo dagana en síðan dró heldur úr. Þá leituðum við austureftir og höfum verið á Kildinbanka í góðri veiði síðan, en Kildinbanki er norðaustur af Múrmansk. Hér hafa um 20 skip verið að veiðum í rjómablíðu og það er ekki yfir nokkrum sköpuðum hlut að kvarta. Við erum nú búnir að fá 620 tonn upp úr sjó á 12 dögum og afköstin í vinnslunni hjá okkur hafa verið um og yfir 70 tonn á sólarhring sem er mjög gott. Aflinn hefur verið það mikill að við höfum miklu meira verið á reki en á veiðum. Vonandi heldur þetta áfram svona. Við gerðum ráð fyrir að túrinn tæki 40 daga en ef veiðin verður svipuð áfram verður hann mun styttri,“ segir Theodór.