Blængur NK við bryggju á Akureyri í morgun. Hann heldur væntanlega til veiða í kvöld. Ljósm. Theodór Haraldsson

Frystitogarinn Blængur NK hefur verið í slipp á Akureyri frá 18. desember en gert er ráð fyrir að hann haldi til veiða í kvöld. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvaða verkefnum hefði verið sinnt í slippnum. „Það var ýmislegt gert. Í fyrsta lagi var gírinn í aðalvélinni tekinn upp og eins voru ljósavélarnar teknar upp. Það var kominn tími á þetta. Síðan var andveltitankur settur í skipið og ýmislegt fleira lagfært eins og gerist og gengur. Loks var skipið málað og snurfusað þannig að það lítur afar vel út. Nú finnst manni tímabært að komast út og fara að gera eitthvað af viti. Ég geri ráð fyrir að áhersla verði lögð á að veiða ufsa en það hefur ekki verið auðvelt að undanförnu. Síðustu tvö árin hefur glíman við ufsann verið erfið, líklega er einfaldlega minna af honum en áður. Samt hefur maður trú á því að þetta komi, það þarf bara töluverða þolinmæði,“ segir Theodór.