Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári Geirsson

Frystitogarinn Blængur NK kom til löndunar í Neskaupstað í morgun, en skipið hafði verið 20 daga á veiðum. Aflinn er 612 tonn og verðmæti hans 243 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra. “Í túrnum veiddum við allt í kringum landið. Við byrjuðum fyrir austan í grálúðu og ufsa, síðan var veiddur gulllax úti fyrir suðausturströndinni. Þá var haldið á Vestfjarðamið í ufsaleit og undir lokin var það þorskur og grálúða hér fyrir austan. Það var leiðindaveður, 15 – 20 metrar, nánast allan túrinn. Nú verður landað og ráðgert er að skipið haldi á ný til veiða annað kvöld,” segir Sigurður Hörður.