Í gær kom frystitogarinn Blængur NK (áður Freri RE) í fyrsta sinn til heimahafnar í Neskaupstað. Síldarvinnslan festi kaup á skipinu fyrr í sumar og hélt það til veiða frá Reykjavík hinn 10. júlí. Veitt var á Halanum og var aflinn í þessari fyrstu veiðiferð rúmlega 300 tonn upp úr sjó, en meginhluti aflans var ufsi. Skipstjóri í veiðiferðinni var Sigtryggur Gíslason en hann er skipstjóri á Kaldbak, sem er systurskip Blængs. Bjarni Ólafur Hjálmarsson var fyrsti stýrimaður í veiðiferðinni en hann tekur nú við sem skipstjóri á Blængi.
Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf í morgun og sagði hann að Blængur væri afar gott sjóskip sem færi vel með áhöfnina. „Þá er hann einnig afar öflugt skip, en vélbúnaður allur er mjög góður og við notuðum einungis 50-60% af vélaraflinu þegar togað var í þessari fyrstu veiðiferð,“ sagði Bjarni Ólafur. „Þessi fyrsta veiðiferð veitti okkur dýrmæta reynslu en ljóst er að ýmislegt þarf að lagfæra um borð í skipinu og þá einkum á vinnsludekkinu. Það liggur skýrt fyrir að það er hægt að fiska mikið á þetta skip og þá skiptir máli að vinnslan um borð gangi vel,“ sagði Bjarni.
Blængur tekur drjúgt pláss í höfninni, enda skipið 79 metra langt. Skipið var lengt og vélbúnaður þess endurnýjaður árið 2000 auk þess frystilestin var endurnýjuð. Blængur er 1723 tonn að stærð og eru 26 menn í áhöfn skipsins.
Ráðgert er að Blængur haldi til veiða á ný nk. fimmtudagskvöld.