Landað úr Blængi NK í gær. Ljósm. Smári Geirsson

Frystitogarinn Blængur NK kom til löndunar í heimahöfn í Neskaupstað á miðvikudagskvöld að loknum 26 daga túr. Afli skipsins er 620 tonn upp úr sjó eða 17 þúsund kassar af frystum fiski. Verðmæti aflans er rúmlega 200 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Við byrjuðum og enduðum fyrir austan land en í millitíðinni vorum við vestur á Hala. Það var rysjótt veðrið fyrir vestan og við lágum tvisvar í vari undir Grænuhlíð. Aflinn er mest karfi, gulllax og ýsa en minna af öðrum tegundum. Túrinn einkenndist af nuddi og menn bera sig þokkalega þrátt fyrir að fiskverð hafi almennt lækkað verulega upp á síðkastið. Það er hins vegar gleðilegt að það er mikið af fiski á miðunum, einkum er mikið að sjá af þorski, ýsu og karfa. Útlitið er því bara bjart. Ég geri ráð fyrir að það verði klárað að landa úr skipinu í dag og haldið á ný til veiða í kvöld,“ segir Sigurður Hörður.