Aðfaranótt fimmtudags kom frystitogarinn Blængur NK til löndunar í Neskaupstað. Aflinn var tæplega 400 tonn upp úr sjó og var meginhluti hans grálúða og þorskur. Verðmæti aflans er um 170 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra um túrinn. „Við héldum til veiða frá Hafnarfirði 11. maí og lá leiðin á Vestfjarðamið. Ætlunin var að veiða grálúðu á Hampiðjutorginu en þá kom í ljós að hafís var á svæðinu og hindraði það verulega veiðarnar. Veitt var við ísinn í um vikutíma en þá hvarf hann loks af slóðinni. Alls vorum við í eina 10 daga að reyna við grálúðuna en fórum þó af og til í Víkurálinn að reyna við karfa og ufsa. Þegar leið á túrinn var kannað með ufsa úti fyrir Norðurlandi með litlum árangri en síðan enduðum við túrinn í grálúðu austur af landinu. Nánast allan túrinn var veðrið fínt en við fengum þó norðaustan kalda í eina þrjá daga,“ segir Theodór.
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða þriðjudaginn 8. júní og þá verður stefnan tekin á Barentshafið. Theodór segir að það sé ávallt spennandi verkefni að veiða í Barentshafinu en í fyrra fór skipið þangað tvisvar. Í fyrra sinnið eftir sjómannadag og í hið síðara í lok október. Í báðum tilvikum var um 40 daga túr að ræða. Í fyrri túrnum veiddust 1440 tonn upp úr sjó en í síðari túrnum 560 tonn. Veiði í Barentshafi hefur verið mjög góð í júní og júlí síðastliðin ár.