Frystitogarinn Blængur NK landar í Hafnarfirði í dag að afloknum 27 daga túr. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og var hann mjög sáttur við veiðina. „Þessi túr gekk bara vel og veðrið var afar gott allan tímann. Það var skemmtileg tilbreyting eftir þá brælutíð sem ríkt hefur. Aflinn er 650 tonn upp úr sjó, mest ufsi og karfi og þó nokkuð af grálúðu. Verðmætin eru líklega hátt í 290 milljónir króna. Í túrnum vorum við á Vestfjarðamiðum og suðvesturmiðum og veiðin var jöfn og góð. Það var nánast samfelld vinnsla allan tímann. Gert er ráð fyrir að haldið verði til veiða á ný annað kvöld og þá verður stefnan tekin á Hampiðjutorgið. Það er grálúðan sem verður þá á dagskránni,“ segir Bjarni Ólafur.