Frystitogarinn Blængur NK kom til löndunar í Neskaupstað í gær að aflokinni 27 daga veiðiferð. Afli skipsins var 760 tonn upp úr sjó að verðmæti 317 milljónir króna. Aflinn var mjög blandaður; karfi, ufsi, grálúða, þorskur og gulllax. Heimasíðan ræddi við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra og spurði fyrst hvar hefði verið veitt. „Það var veitt víða. Við byrjuðum austur af landinu og vorum þar í rúma viku. Þá var haldið suður fyrir landið og þar veitt í eina tvo eða þrjá daga. Leiðin lá síðan á Halamið og þar var verið að í rúma viku. Í lokin var síðan farið suður á Fjöllin og í Skerjadýpið. Megnið af túrnum var ágæt veiði og vinnslan gekk vel. Við erum að koma með tæp 500 tonn, eða um 21 þúsund kassa, af frosnum afurðum og það þýðir að unnin voru rúm 19 tonn af afurðum hvern veiðidag. Það er vel að verið enda hörkumannskapur og góð liðsheild hér um borð. Þá ber að geta þess að það var gott veður nánast allan túrinn. Lífið er betra þegar veðrið er gott en veturinn var langur og erfiður og kominn tími til að veðurfarið breyttist. Það er staðreynd að það er léttara yfir öllum í góðu veðri. Við á Blængi erum að sjálfsögðu með róðraplan og tvær áhafnir og auðvitað þarf að skipta sumrinu jafnt á milli áhafna. Það skiptir máli fyrir okkur að heimildir í karfa voru auknar og það gefur okkur meiri möguleika til að leita að ufsa, en ufsinn og karfinn halda sig oft á sömu slóðum. Það hefur reynst mönnum erfitt að finna ufsa að undanförnu og því er aukningin í karfanum mikilvæg,“ segir Sigurður Hörður.
Blængur mun væntanlega halda til veiða á ný í kvöld.