Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar á sunnudaginn að afloknum 39 daga túr. Afli skipsins var 1.020 tonn upp úr sjó og er verðmæti hans 357 milljónir króna. Blængur millilandaði þann 18. janúar en þá hafði hann verið 13 daga að veiðum. Samsetning aflans í túrnum var eftirfarandi: 278 tonn ýsa, 230 tonn gullkarfi, 215 tonn ufsi, 154 tonn þorskur og 110 tonn gulllax. Af öðrum tegundum var minna.
Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði hann hvort menn væru ekki sáttir við túrinn. „Jú, ég held að menn séu bara mjög sáttir, ekki síst með tilliti til þess að þetta var janúartúr. Janúartúrar hafa nefnilega oft reynst býsna erfiðir. Við erum að landa tæplega 30.000 kössum eftir túrinn og það er harla gott. Það var víða veitt. Við vorum sunnan við landið og einnig fyrir austan. Þá var farið norður fyrir og allt vestur í Víkurál. Aflinn var tiltölulega jafn og það var ávallt nóg að gera í vinnslunni hjá okkur. Það var aldrei dauður tími. Næst er Barenthafið á dagskrá hjá Blængi. Haldið verður þangað á morgun. Sigurður Hörður Kristjánsson skipstjóri og áhöfn hans fer með skipið í Barentshafið og það verður væntanlega einnig um 40 daga túr,“ segir Bjarni Ólafur.