Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar aðfaranótt mánudags eftir ágætan túr. Afli skipsins var rúmlega 540 tonn upp úr sjó að verðmæti 153 milljónir króna. Aflinn er blandaður en mest af gulllaxi, karfa og ufsa. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri er ánægður með túrinn. „Þetta var þriggja vikna túr en við fórum út 12. janúar. Veðrið gerði okkur erfitt fyrir fyrstu tvær vikurnar. Vegna brælunnar urðum við að veiða fyrir austan og norðan land en að því kom að við gátum fært okkur suður fyrir. Fyrir sunnan landið veiddum við frá Lónsdýpinu og vestur í Skerjadýpi og þar var ágætis kropp í gulllaxi, karfa og ufsa. Við verðum að vera ágætlega sáttir við niðurstöðu túrsins því veðrið truflaði okkur verulega framan af,“ segir Bjarni Ólafur.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða nk. fimmtudagskvöld.