Landað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonLandað úr Blængi NK. Ljósm. Smári GeirssonFrystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í morgun að afloknum tuttugu og fjögurra daga túr, en haldið var til veiða hinn 10. mars. Aflinn er rúmlega 600 tonn upp úr sjó og er frystilestin sneisafull. Uppistaða aflans er karfi og ýsa og er verðmæti hans 181 milljón króna. Í veiðiferðinni var gullkarfi veiddur á Melsekk, djúpkarfi í Skerjadýpinu og ýsa á Selvogsbanka. Theodór Haraldsson skipstjóri segir að þetta hafi verið fínasti túr hvað veiðina varðar en veðrið hafi verið djöfullegt nánast allan tímann. „ Í sannleika sagt var veðrið einungis skaplegt síðustu tvo dagana. Einu sinni fórum við í var við Garðskagann en þá var veðrið snarvitlaust og tíu metra ölduhæð. Í túrnum vorum við tvo sólarhringa frá veiðum vegna veðurs en annars var oft verið að veiða í vitlausu veðri. Manni fannst vera blíða þegar hann fór undir fimmtán metrana. Veðurfarslega var þetta fjarri því að vera skemmtileg veiðiferð en það var hins vegar ávallt góð veiði,“ segir Theodór.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi aftur til veiða á sunnudagskvöld.