Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar sl. nótt og mun landa á morgun. Afli skipsins er 556 tonn upp úr sjó og er ufsi meirihluti aflans. Verðmæti farmsins er um 160 milljónir króna. Hér er um að ræða fyrstu veiðiferð skipsins eftir breytingar og lagfæringar sem framkvæmdar voru í Slippnum á Akureyri. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að mannskapurinn sé mjög ánægður með þær breytingar sem gerðar voru. „Nýju spilin virkuðu strax fullkomlega og breytingar á millidekkinu komu mjög vel út. Í veiðiferðinni veiddum við úti fyrir Norðurlandi, alveg frá norðausturhorninu til Vestfjarða. Við færðum okkur til eftir veðri. Þetta var voðalegur brælutúr og við lágum til dæmis í fjóra sólarhringa undir Grænuhlíð til að bíða af okkur illviðri. Einnig var túrinn styttur vegna veðurs. Hins vegar var alltaf góð veiði þegar gaf og ekkert undan því að kvarta,“ segir Bjarni Ólafur.