Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í nótt til millilöndunar. Skipið er í 40 daga túr en kom inn eftir að hafa verið 13 daga á veiðum. Aflinn hingað til í túrnum er 372 tonn upp úr sjó og er uppistaða aflans ýsa og ufsi. Heimasíðan ræddi við Bjarna Ólaf Hjálmarsson skipstjóra og spurði fyrst hvort menn væru ekki sáttir við aflabrögðin. „Jú, þau hafa verið býsna góð og það hefur verið nóg að gera það sem af er túrnum. Við komum inn til að landa tæplega 11.000 kössum og verðmæti aflans er 121 milljón. Við höfum verið að veiðum hérna fyrir austan og veðrið hefur verið gott að undanskildum síðustu dögunum. Það hefur oft verið þokkalegasta ýsuveiði hér eystra á þessum árstíma en núna bætist ufsinn við og það er gleðiefni. Traffíkin á miðunum er ansi mikil og sóknin í ufsann er eðlilega mikil. Við munum halda á ný til veiða að lokinni löndun í kvöld og klára þennan langa túr en síðan er Barentshafstúr á dagskránni hjá Blængi og hann verður líka langur,“ segir Bjarni Ólafur.