Frystitogarinn Blængur NK millilandaði á Akureyri í gær. Hann mun halda til veiða á ný í dag. Heimasíðan sló á þráðinn til Bjarna Ólafs Hjálmarssonar skipstjóra og spurði hann hvernig túrinn hefði gengið. „Það má segja að túrinn hafi gengið vel til þessa. Við byrjuðum að veiða fyrir austan en færðum okkur síðan á suðvesturmið og Vestfjarðamið. Aflinn hefur verið góður allan tímann. Í gær fóru í land um 16.000 kassar eða um 500 tonn og uppistaða aflans var ufsi og karfi. Við eigum eftir rúmlega hálfan mánuð af þessari veiðiferð þannig að hún mun taka 40 daga í heildina. Að loknum túrnum mun síðan skipið fara í slipp,“ segir Bjarni Ólafur.