Sumarið 2015 festi Síldarvinnslan í Neskaupstað kaup á frystitogaranum Frera af Ögurvík hf. og fékk hann þá nafnið Blængur og einkennisstafina NK 125. Blængur hét upphaflega Ingólfur Arnarson og var smíðaður á Spáni fyrir Bæjarútgerð Reykjavíkur. Skipið kom nýtt til landsins í janúarmánuði 1974. Bæjarútgerðin átti togarann til ársins 1985 en þá festi Ögurvík kaup á honum og þá var honum breytt í frystiskip. Árið 2000 voru gerðar umfangsmiklar breytingar á togaranum en þá var hann meðal annars lengdur um 10 metra og aðalvél endurnýjuð. Einnig var vinnslulínan endurnýjuð svo og frystilestin. Skipið er 79 metra langt eftir breytingarnar og búið 5000 hestafla aðalvél af gerðinni Wartsila. Það er 1723 brúttótonn að stærð.
Blængur NK er eini frystitogari Austfirðinga og því hefur hann nokkra sérstöðu. Skipstjórar á skipinu eru þeir Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theodór Haraldsson og settist tíðindamaður heimasíðunnar niður með þeim á dögunum til að fræðast um skipið og útgerð þess. Í upphafi viðtalsins kom fram að Blængur hafi fyrst og fremst verið gerður út á ufsa, karfa og grálúðu, en það eru tegundirnar sem íslenskir frystitogarar hafa lagt áherslu á að veiða á undanförnum árum. Um væri að ræða hörkuskip með miklum togkrafti og Blængur væri nú eitt af öflugustu togskipum Íslendinga. „Skipið er öflugt veiðitæki og oft gaman að fiska á það,“ segir Theodór.
Yfirstandandi ár er í reynd fyrsta árið sem útgerð Blængs er samfelld. Skipið var keypt um sumarið 2015, á árinu 2016 fór það í umfangsmiklar breytingar í Póllandi og lauk þeim ekki fyrr en komið var fram á árið 2017. Árið 2018 var
sk
ipið einnig frá veiðum um tíma en þá var meðal annars skipt um togspil. Segja má að árið 2019 sé þriðja rekstrarár skipsins í eigu Síldarvinnslunnar og fyrsta heila árið í rekstri.
„Árið í ár hefur verið afar gott. Við erum búnir að fiska fyrir 2,1 milljarð króna á árinu og enn eru hátt í tveir mánuðir eftir af því. Árið 2018 fiskuðum við um 6000 tonn allt árið en nú erum við búnir að fiska 6.900 tonn og það má reikna með að ársaflinn fari að minnsta kosti í 7.500 tonn,“ segir Bjarni Ólafur. Líklega mun afli skipsins í ár verða sá mesti sem austfirskur togari hefur skilað á land.
Þó svo að áhersla sé helst lögð á ufsa- og karfaveiði á miðunum við Ísland hefur Blængur farið í Barentshafið bæði í ár og í fyrra og fiskað þorsk. „Barentshafstúrarnir hafa skipt okkur miklu máli en þar var veitt í maímánuði 2018 og í júní 2019. „Sérstaklega var Barentshafstúrinn í ár glæsilegur en þá veiddum við 1500 tonn af þorski og var aflaverðmætið um 500 milljónir. Veiðin gekk í alla staði eins vel og hægt var að hugsa sér,“ segir Theodór.
Fram kemur hjá þeim Bjarna Ólafi og Theodór að 26 séu í áhöfn Blængs en heildaráhöfnin telji um 45 manns. Rúmlega helmingur heildaráhafnarinnar er í skiptikerfi. Yfirleitt taka veiðiferðir skipsins um það bil einn mánuð. Yfirmenn skipsins eru Austfirðingar en hásetar koma frá ýmsum landshlutum, allmargir til dæmis að norðan og nokkrir af höfuðborgarsvæðinu. Vart hefur orðið við aukinn áhuga sjómanna á plássum á Blængi og segja þeir Bjarni Ólafur og Theodór að um þessar mundir rigni inn umsóknum. „Áhuginn ræðst mikið af tekjumöguleikunum og fullur hásetahlutur það sem af er árinu er kominn í 21 milljón króna. Fiskverð er hátt um þessar mundir og gengið hefur þróast með hagstæðum hætti og þetta hvoru tveggja kemur sér vel. Það hefur ekki verið óalgengt að háseti hafi haft um tvær milljónir króna fyrir túrinn að undanförnu. Það má hins vegar ekki gleyma því að það er mikil vinna um borð í frystitogara og menn þurfa að hafa fyrir lífinu um borð í slíku skipi,“ segir Theodór.