Landað úr Blængi NK í Norðfjarðarhöfn.  Ljósm. Hákon ErnusonLandað úr Blængi NK í Norðfjarðarhöfn.
Ljósm. Hákon Ernuson
Frystitogarinn Blængur NK kom til löndunar til Neskaupstaðar sl. laugardag að lokinni 26 daga veiðiferð. Togarinn millilandaði í Hafnarfirði hinn 13. þessa mánaðar. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi gengið ágætlega. „Við hófum veiðar fyrir vestan og millilönduðum í Hafnarfirði eftir um það bil 10 daga. Það var mest karfi sem þá fór á land. Síðan héldum við áfram veiðum á Vestfjarðamiðum og einnig úti fyrir Norðurlandi og þar veiddist vel af ufsa og karfa auk þess sem nokkur þorskur var í aflanum. Heildaraflinn upp úr sjó var 566 tonn og verðmætin voru um 123 milljónir. Segja má að vel hafi veiðst allan túrinn og veðrið var með ágætum,“ sagði Bjarni Ólafur.
 
Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða nk. miðvikudag.