Blængur NK. Ljósm. Atli Þorsteinsson

Frystitogarinn Blængur NK kom til hafnar í Neskaupstað sl. nótt eftir vel heppnaða veiðiferð í Barentshafið. Afli skipsins var um 770 tonn að verðmæti 315 milljónir króna. Heimasíðan ræddi við Sigurð Hörð Kristjánsson skipstjóra og bað hann um að segja stuttlega frá túrnum. „Við héldum til veiða frá Neskaupstað 10. nóvember. Haldið var rakleiðis í Barentshafið þar sem veiðar hófust í rússneskri lögsögu. Fyrstu 10-12 dagana var veiðin róleg en við leituðum austur eftir og þegar við vorum 60-80 mílur frá Novaja Zemlija rættist úr veiðinni. Þarna fengum við 40-50 tonn á dag af fínasta þorski. Við lukum við að veiða kvótann okkar þarna 7. desember en hann var um 540 tonn. Þá var haldið í norska lögsögu en þar máttum við veiða 220 tonn. Í norsku lögsögunni veiddum við mest á Garðarsbanka og suður af Bjarnarey. Þarna var þokkalegasta nudd og aflinn var fínn þorskur. Við lukum veiðunum í norsku lögsögunni 15. desember. Síðan tókum við einn dag á heimamiðum áður en við héldum inn til löndunar. Ég hef aldrei áður farið í veiðiferð þar sem veitt var í þremur lögsögum. Þessi veiðiferð gekk vel í alla staði og mér líst vel bæði á skip og áhöfn en þetta var mín fyrsta veiðiferð á Blængi. Það er óneitanlega afar þægilegt að hafa rússneskumælandi mann í áhöfninni en Geir Stefánsson stýrimaður talar rússnesku eins og innfæddur og því voru öll samskipti við rússneska eftirlitsmanninn um borð einföld og þægileg. Við fengum líka norsku strandgæsluna um borð til okkar og það var hin ánægjulegasta heimsókn,“ segir Sigurður Hörður.