Barentshafsfiski landað úr Blængi NK í gær. Ljósm. Smári Geirsson

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gærmorgun að loknum rúmlega mánaðar túr í Barentshafið. Afli skipsins var 536 tonn upp úr sjó og var verðmæti hans 176 milljónir króna. Heimasíðan bað Theodór Haraldsson skipstjóra um segja stuttlega frá veiðiferðinni. „Við héldum til veiða 22. október og það tók okkur þrjá og hálfan sólarhring að sigla þessar 1100 mílur á veiðisvæðið. Fyrstu tvo eða þrjá dagana var aflinn þokkalegur eða upp undir tvö tonn á tímann en það reyndist bara vera smá glenna. Það brældi síðan og þá hvarf fiskurinn að mestu. Það sem eftir var túrsins vorum við yfirleitt að fá 400-500 kg. á togtímann og það er of lítið til að menn séu sáttir. Við fengum fréttir um betri veiði annars staðar en sú reyndist ekki vera raunin. Við færðum okkur því aftur til baka og vorum í reynd að veiða allan tímann á Skolpenbankanum. Túrinn einkenndist því af heldur lítilli veiði og 15-20 metra vindi megnið af tímanum. Staðreyndin er sú að þetta var heldur lítið spennandi en geðheilsan um borð var samt ótrúlega fín. Þetta getur gerst og menn vita að það eru ekki alltaf jólin í þessum bransa, en auðvitað eru menn fegnir að koma heim. Heimsiglingin tók fjóra sólarhringa enda sigldum við suður með Noregi til að sleppa við illviðri og það lengdi siglinguna töluvert,“ segir Theodór. 

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi á ný til veiða í fyrramálið.