Blængur NK kom til hafnar í Neskaupstað í gær. Ljósm. Smári Geirsson

Frystitogarinn Blængur NK kom til Neskaupstaðar í gær að lokinni þriggja vikna veiðiferð. Aflinn var 370 tonn upp úr sjó að verðmæti 230 milljónir króna. Bjarni Ólafur Hjálmarsson skipstjóri segir að veiðin hafi ekki verið neitt sérstök. „Veiðin hjá okkur var í rólegri kantinum, þetta var svona nudd allan tímann. Aflinn var blandaður. Við hófum veiðar hér fyrir austan en síðan var haldið norður fyrir land og alla leið vestur á Hala. Það var semsagt víða veitt. Við veiddum í blíðu allan tímann en lentum síðan í leiðindaveðri á landleiðinni. Við þurftum meira að segja aðstoð björgunarskipsins Hafbjargar til að leggjast upp að í gær vegna hvassviðris. Lokið verður við að landa úr skipinu í dag og á morgun verður haldið til Akureyrar. Þar fer skipið í slipp og í vélarupptekt. Það verður ekki haldið til veiða á ný fyrr en 17. janúar þannig að mannskapurinn fær gott jólafrí,“ segir Bjarni Ólafur.