Blængur NK að veiðum í Víkurálnum. Ljósm. Guðmundur St. Valdimarsson

Sl. miðvikudag kom frystitogarinn Blængur NK til löndunar í Neskaupstað að lokinni tuttugu og þriggja daga veiðiferð. Afli skipsins var um 620 tonn upp úr sjó að verðmæti um 180 milljónir króna. Uppistaða aflans var karfi og ufsi. Heimasíðan ræddi við Theodór Haraldsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið fyrir sig. „Við fórum út 31. ágúst og ætlunin var að fara á Vestfjarðamið, en þá var bræla fyrir vestan svo við hófum veiðar í Lónsbugtinni og á Breiðdalsgrunni. Þar var heldur lítið að hafa og haldið var vestur strax og útlit var fyrir betra veður þar. Megnið af túrnum vorum við síðan á Halanum í ufsaleit og fórum tvisvar í Víkurálinn í karfa. Síðan brældi á meðan við vorum fyrir vestan og þá var haldið í ufsaleit á Fjöllin við Reykjanesið. Það reyndist vera lítið af ufsa þar og við komum okkur aftur vestur strax og veður skánaði þar. Eins og sést á þessari lýsingu réði veðrið miklu í þessari veiðiferð; haustið er komið með sínum lægðum. Eins verður að hafa í huga að september getur verið býsna erfiður hvað veiðar varðar, reynslan hefur sýnt okkur það. Þegar upp var staðið rættist vel úr túrnum og miðað við veður og tímalengd geta menn bara verið ágætlega sáttir,“ segir Theodór.

Gert er ráð fyrir að Blængur haldi til veiða á ný annað kvöld.