20160608 085915

                Frystitogarinn Blængur NK 125 hefur að undanförnu verið í Gdansk í Póllandi þar sem unnið hefur verið að umfangsmiklum endurbótum á skipinu. Nú eru framkvæmdir komnar vel á veg og verið er að ljúka við að mála skipið í nýjum Síldarvinnslulitum. Liturinn á skrokknum er mun dekkri en sá sem hefur lengi verið notaður, en í reynd ekki ósvipaður litnum á fyrstu bátunum sem Síldarvinnslan eignaðist árið 1965. Freysteinn Bjarnason hefur verið eftirlitsmaður með framkvæmdunum ytra og bað heimasíðan hann að senda huggulegt sendibréf heim þar sem lýst er öllum þeim endurbótum sem unnið er að. Bréf Freysteins fylgir hér:

Góðan og blessaðan daginn.

                Héðan frá Póllandi er allt gott að frétta og allt á réttri leið. Framkvæmdir ganga vel um þessar mundir og unnið af krafti á mörgum vígstöðvum, skipið fer væntanlega úr flotdokkinni á morgun, fimmtudag. Búið er að þjónusta skrokkinn afar vel, komin ný bógskrúfa, sett tvö ný botnstykki fyrir dýptarmæli og straumlogg, skipið öxuldregið og skrúfan tekin í sundur til viðhalds og sömuleiðis stýrið. Þá er búið að mála skrokkinn í nýjum litum Síldarvinnslunnar og skreyta á ýmsan hátt. Áður hafði skipið verið sandblásið frá toppi til táar.

20160608 085647

                Svo maður hverfi til upphafsins fóru fyrstu vikurnar í að „rífa, tæta og skemmileggja“ eins og sagt er á kjarngóðu máli. Allt var hreinsað út úr íbúðum og brú alveg inn að stáli. Það var heilmikið verk og heldur sóðalegt. Skera þurfti burt þil og styrkingar vegna allra breytinganna. Allt var sandblásið og ryðvarið. Öllum innréttingum verður umbylt og gjörbreytt. Töluverðar skemmdir voru í stálverki, sérstaklega í brúargólfi og rennusteinum, eðli máls samkvæmt eftir öll þessi ár. Allur vinnslubúnaður var fjarlægður af vinnsludekki, fjarlægt kvartsefni af gólfi og það síðan allt sandblásið. Brotin öll steypa af lestargólfi, settar stoðir fram með lestarveggjum beggja vegna til að halda við pallettur eða fiskikör, síðan verður steypt í gólfið á ný og lestin verður eins og annað; betra en nýtt.

                Aftur til dagsins í dag. Búið er að stilla upp nýjum stjórn- og tækjapúltum í brúnni og byrjað að leggja einhverja kílómetra af rafmagnsköplum. Lokið er öllum lögnum á íbúðahæðum ss. ferskvatn, ofnalagnir, niðurföll, klóak, loftræsting og allt það sem nauðsynlegt er. Búið er að undirbúa komu heita pottsins og klæðning á veggþiljum hefst á morgun. Verið er að byrja á að koma fyrir nýrri löndunarlúgu sem er sett út við lunningu stb. megin.

                Ljóst er að verkinu hefur seinkað nokkuð frá upphaflegri áætlun en nú er miðað við að verklok verði 20. júlí nk.

               Ég lofa því að glæsilegt skip siglir til Íslands fyrir verslunarmannahelgi.

                                                                    Bestu kveðjur, ég sakna ykkar allra.

                                                                                         Freysteinn