Bergey VE að toga. Ljósm. Egill Guðni Guðnason

Vestmannaeyjaskipin, Bergey VE og Vestmannaey VE, héldu til veiða sl. sunnudag og lönduðu síðan bæði fullfermi sl. miðvikudag. Þau héldu til veiða á ný í gærkvöldi eftir rúmlega sólarhrings stopp í landi. Heimasíðan ræddi við Jón Valgeirsson, skipstjóra á Bergey, og spurði hvernig túrinn hefði gengið. „Það má segja að þetta hafi verið fínasti túr þó bræla hafi truflað okkur talsvert. Við byrjuðum á Víkinni og á Pétursey en þar fékkst helst þorskur. Áformað var að reyna við djúpkarfa en brælan kom í veg fyrir það. Í stað þess fórum við að Ingólfshöfða of þar fengum við steinbít, skarkola og lemma eða sólkola. Við gerðum okkur vonir um að fá ufsa en hann lætur ekki sjá sig blessaður. Núna erum við á Sneiðinni að reyna við djúpkarfa og það er heldur rólegt hjá okkur,“ segir Jón.

Aflinn, sem Vestmannaey landaði á miðvikudag, var mest þorskur og ýsa sem fékkst á Péturey og Vík. Þegar haft var samband við skipið í morgun sagði Egill Guðni Guðnason stýrimaður að verið væri að sigla utan við Skarðsfjöruna í austurátt og væri ætlunin að skoða Ingólfshöfðasvæðið.