Snemma í morgun kom ísfisktogarinn Gullver NS til löndunar á Seyðisfirði. Skipið var með rúm 108 tonn af blönduðum afla. Þórhallur Jónsson skipstjóri segir að veðrið hafi verið misjafnt í veiðiferðinni. “Við vorum fimm daga á veiðum og fengum skítaveður í tvo daga. Veitt var frá Hvalbakshalli og vestur í Skeiðarárdýpi. Fyrir austan var sjórinn kaldur og ekki mikið af fiski þannig að við þurftum að fara vestureftir í hlýrri sjó. Aflinn í túrnum er vel blandaður; þorskur, karfi, ufsi og ýsa,” segir Þórhallur. 

Gullver mun halda á ný til veiða síðdegis í dag.

Gullver NS kom til löndunar í gær. Ljósm. Ómar Bogason