Bleiki dagurinn er í dag en október er mánuður bleiku slaufunnar eins og öllum er kunnugt. Bleika slaufan er árveknis- og fjáröflunarátak Krabbameinsfélags Íslands gegn krabbameinum hjá konum. Á bleika deginum eru allir landsmenn hvattir til að hampa bleikum lit og sýna samstöðu gegn krabbameinsvágestinum. Síldarvinnslan lætur ekki sitt eftir liggja á bleika deginum og bleiki liturinn er býsna áberandi innan fyrirtækisins. Til að mynda er boðið upp á dýrindis bleikar tertur með kaffinu og öllum konum sem eru að störfum hjá fyrirtækinu í dag var afhent hálsmen með bleiku slaufunni.