Frystitogarinn Blængur NK hóf veiðar í Barentshafinu 28. apríl sl. Veiðin fór tiltölulega hægt af stað og segir Theodór Haraldsson skipstjóri að fyrstu dagana hafi fengist um það bil tonn á tímann. Að undanförnu hefur veiðin farið vaxandi en fiskurinn heldur sig á litlum blettum og þegar hann finnst hópast einir 20 togarar að og þá dregur fljótt úr veiðinni. Auk Blængs er Kleifaberg þarna að veiðum ásamt þremur færeyskum skipum en önnur skip eru rússnesk. Það var góð veiði á sunnudag og mánudag og á mánudaginn fengust 70-80 tonn þannig að í fyrrinótt var skipið á reki á meðan aflinn var unninn. Vinnslan hefur gengið mjög vel og fóru 65 tonn af blönduðum afla í gegnum hana á mánudag. Í gær datt veiðin niður á ný og nú eru skipin að leita. Theodór segir að nú séu um 600 tonn komin um borð í skipið og uppistaða aflans sé þorskur. „Það er staðreynd að við vonuðumst eftir heldur meiri afla en hitt er svo annað mál að þetta þætti góður afli á Íslandsmiðum. Það hefur venjulega verið meiri afli í Barentshafinu um þetta leyti árs en af einhverjum ástæðum er fiskgengd ekki jafn mikil núna. Hér hefur verið blíðuveður þennan hálfa mánuð sem við höfum verið að veiðum. Skipið hreyfist nánast ekki, það er eins og legið sé við bryggju,“ segir Theodór.
Blængur mun koma í heimahöfn úr veiðiferðinni í Barentshafið fyrir sjómannadag sem er 3. júní.