Ragnhildur Tryggvadóttir launafulltrúi skrifaði undir samgöngusamninginn. Ljósm. Hákon Ernuson

Enn á ný gefst starfsfólki Síldarvinnslunnar kostur á að gera samgöngusamning við fyrirtækið rétt eins og boðið hefur verið upp á sl. fimm ár. Samningurinn getur gilt fyrir allt tímabilið frá 1. maí til 31. október eða hluta þess tímabils. Slíkur samningur felur í sér að viðkomandi starfsmaður fer gangandi eða hjólandi í og úr vinnu að minnsta kosti fjóra daga í viku hverri og fær þá að styrk upphæð sem nemur 10.500 kr. á mánuði. Styrkurinn er undanþeginn skatti.

Starfsmönnum, sem gera samgöngusamning, hefur fjölgað ár frá ári að sögn Hákonar Ernusonar starfsmannastjóra. Hann leggur áherslu á að samningurinn stuðli að minnkandi bílaumferð og bæti heilsu viðkomandi.

Starfsmennirnir, sem óska eftir því að gera samgöngusamning við fyrirtækið, skulu snúa sér til stjórnenda á viðkomandi vinnustað eða starfsmannastjórans. Fyrir liggur að sjómönnum gefst ekki kostur á að gera samgöngusamning vegna eðlis starfa þeirra en þeir eru að sjálfsögðu hvattir til að stunda góða og holla hreyfingu.