Polar Amaroq. Ljósm. Þorgeir BaldurssonPolar Amaroq. Ljósm. Þorgeir BaldurssonLoðnuveiðin fyrir norðan land var heldur gloppótt síðasta sólarhringinn. Skipin köstuðu í gærmorgun og fram eftir degi en árangur var misjafn. Einhver fengu ágæt köst en önnur minna. Um kvöldmatarleytið brældi síðan og var bræla fram eftir nóttu. Í morgun var hins vegar komið gott veður og voru flest skipin að leita og bíða eftir að loðnan þétti sig.
 
Hákon EA kom til Neskaupstaðar í morgun með 1100 tonn og Bjarni Ólafsson AK er á leið þangað með 1150 tonn sem hann fékk í fjórum köstum í gær.
 
Síðustu fréttir herma að færeyska skipið Finnur fríði hafi kastað út af Héraðsflóa í morgun en ekki hefur enn frést um árangur. Íslenskt skip kastaði á sömu slóðum í gær en reif nótina.
 
Heimasíðan hafði samband við Halldór Jónasson skipstjóra á Polar Amaroq skömmu fyrir hádegi og spurði frétta af miðunum fyrir norðan en skipið er komið með 1000 tonn. „Hér er algert blíðuveður en bölvað reiðileysi á flotanum,“ sagði Halldór. „Eins og er er ekkert að sjá nema ryk. Beitir og Sighvatur Bjarnason köstuðu í morgun en það kom lítið út úr því. Í gær fengu sum skipanna góð köst en nú er ekkert að frétta nema að hérna er rjómablíða. Við erum að leita og erum núna 28 mílur norðnorðaustur af Skagatá. Ég geri ráð fyrir að skipin muni leita austar ef ekkert finnst hérna og það þýðir ekkert annað en að vera bjartsýnn. Þetta hlýtur að koma.“