Gullver NS að landa á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonGullver NS að landa á Seyðisfirði. Ljósm. Ómar BogasonÍsfisktogarinn Gullver NS kom til Seyðisfjarðar í morgun með 95 tonn. Aflinn er mest þorskur. Heimasíðan hafði samband við Þórhall Jónsson skipstjóra og spurði hvernig veiðiferðin hefði gengið. „Þessi túr gekk vel. Við vorum að veiðum í þrjá sólarhringa og aflinn var þokkalegur. Þetta var svona nudd. Það var alger blíða á miðunum og það var skemmtileg tilbreyting. Það er búin að vera bölvuð bræla allan janúar þar til í þessum túr. Aflinn framan af mánuðinum var takmarkaður en hafa ber í huga að veðrið truflaði veiðar, það virtist ekki vera mikill fiskur á miðunum hér eystra og við vorum jafnvel einskipa á slóðinni. Nú hefur veður skánað, allavega í bili, og við verðum varir við meira af fiski. Þá hefur skipum fjölgað mjög á Austfjarðamiðum vegna veðurfars á öðrum miðum við landið. Hingað eru komnir frystitogarar og eins eru Vestmannaeyjaskipin komin hingað austur. Með tilkomu þeirra fæst betri vitneskja um stöðuna á miðunum. Núverandi blíða gefur fyrirheit um að veðrið geti farið að lagast og þá verður þetta fínt,“ sagði Þórhallur.
 
Fyrir þessa veiðiferð landaði Gullver á Seyðisfirði sl. mánudag. Þá lönduðu Vestmannaeyjaskipin Bergey og Vestmannaey á Seyðisfirði sl. miðvikudag og þegar þetta er ritað er Bergey að landa á Eskifirði og Vestmannaey á Seyðisfirði.
 
Frystitogarinn Blængur NK millilandaði í Hafnarfirði sl. þriðjudag. Aflinn var 230 tonn upp úr sjó.