Ísfisktogarinn Bjartur NK kom til Neskaupstaðar í gær að aflokinni stuttri veiðiferð. Aflinn var einungis 45 tonn sem þykir lítið en veður var vont í túrnum. Steinþór Hálfdanarson skipstjóri upplýsti heimasíðuna um að haldið yrði til veiða á ný í dag og vonandi væri veðrið eitthvað að ganga niður.
Brælan hefur líka haft sín áhrif á makríl- og síldveiðar en erfitt getur verið að finna makrílinn þegar brælir. Þetta hlé á veiðunum hefur verið notað til að þrífa í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar en það er gert með reglubundnum hætti. Þá er vinnsluhléið notað til að víxla dag- og næturvöktum í verinu. Vaktafyrirkomulagi í fiskiðjuverinu var breytt 13. ágúst og teknar upp tvískiptar vaktir í stað þrískiptra. Á þessum tíma er hefð fyrir að breyta vaktafyrirkomulaginu enda eru sumarstarfsmenn þá að hverfa á braut. Á hvorri vakt eru 25 starfsmenn en að auki eru 3 starfsmenn í fríi á hverjum tíma.