Börkur NK er á landleið með 1560 tonn tonn af íslenskri sumargotssíld og er væntanlegur til Neskaupstaðar seinni partinn á morgun. Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra rétt fyrir hádegi í dag en skipið var þá nýkomið fram hjá Þorlákshöfn. Hjörvar sagði að veiðin hefði gengið vel í túrnum og aflinn hefði fengist í fjórum holum. „Þetta er flott síld og það gekk vel að ná í hana“, sagði Hjörvar. Stærsta holið gaf 530 tonn en við tókum það í gærdag. Veiðisvæðið var djúpt úti í Kolluál og upp í Wilson‘s Corner en svo nefnist suðvesturhorn Látragrunns“.
Hjörvar sagði að síldarvertíðin hefði gengið vel en nú væri síldarkvóti Síldarvinnslunnar að verða uppurinn. „Þetta er síðasti túrinn okkar á þessari vertíð og nú á að fara að gefa kolmunnanum gaum. Í nóvember og desember í fyrra var kolmunnaveiði í færeysku lögsögunni og stefnan verður sett þangað. Við þyrftum að ná einhverjum kolmunna áður en árið kveður“, sagði Hjörvar að lokum.