Börkur NK að loðnuveiðum. Ljósm. Geir ZoëgaGert er ráð fyrir að Börkur NK haldi til loðnuveiða í dag en veiðar á loðnu hófust í gær út af Hraunhafnartanga.

Heildarloðnukvótinn við landið er um 215 þúsund tonn og þar af hefur verið úthlutað 126.800 tonnum til íslenskra skipa. Í hlut skipa Síldarvinnslunnar komu 19.200 tonn í þessari úthlutun.

Gunnþór Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar segir að markaðsaðstæður fyrir loðnuafurðir verði að teljast þokkalegar. Verð á mjöli og lýsi sé hátt um þessar mundir, ekki síst vegna aflabrests í ansjósuveiðum Perúmanna sl. haust. Eftirspurn er eftir frosinni loðnu í Austur-Evrópu en þar ríkir hins vegar óvissuástand á sviði stjórnmála og efnahagsmála. Segir Gunnþór að líkur séu á að varlega verði farið í að frysta loðnu á austur-evrópskan markað en hins vegar verði lögð áhersla á að frysta stærri loðnu á aðra markaði.