Börkur NK kom til Seyðisfjarðar í morgun og landar þar tæplega 2.300 tonnum af kolmunna í fiskimjölsverksmiðjuna. Börkur NK kom til Seyðisfjarðar í morgun og landar þar tæplega 2.300 tonnum af kolmunna í fiskimjölsverksmiðjuna.
Gunnar Sverrisson verksmiðjustjóri var að vonum kátur að fá afla til vinnslu. Hann sagði hráefnið gott til vinnslu og löndun gengi vel í fallegu sumarveðri á Seyðisfirði og reiknar með að klára löndun upp úr miðnætti.
Heimasíðan náði tali af Hjörvari Hjálmarssyni skipstjóra í morgun og var hann að vonum ánægður með veiðina og hugðist hann nýta daginn á Seyðisfirði í fjallgöngu og hlaup áður en skipið heldur aftur út.
„Við erum að landa tæplega 2.300 tonnum af fallegum kolmunna sem fékkst austast í færeysku lögsögunni. Veiðin gekk vonum framar og fékkst aflinn í 7 holum. Við stefnum svo aftur á miðin á morgun og vonumst til að áfram verði gangur í þessu. Veðrið á miðunum var eins og best verður á kosið og hreyfði varla vind“ sagði Hjörvar.