Börkur NK að veiðum. Ljósm. Atli Rúnar EysteinssonBörkur NK er með 1400 tonn af íslenskri sumargotssíld á landleið en síldina fékk hann 40-50 mílur vestur af Öndverðarnesi. Gert er ráð fyrir að skipið komi til Neskaupstaðar á milli kl. 8 og 9 annað kvöld. Heimasíðan ræddi við Sturlu Þórðarson skipstjóra um hádegisbil þegar skipið var statt suðvestur af Malarrifi. Lét Sturla vel af sér og sagði að misjafnlega mikið væri að sjá af síld á þessum miðum en hægt væri að fá góð hol, einkum yfir daginn. Börkur fékk aflann í 5 holum í þessari veiðiferð.

Nú er verið að vinna íslenska sumargotssíld í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar sem Beitir kom með að vestan í nótt sem leið. Að sögn Jóns  Gunnars Sigurjónssonar yfirverkstjóra gengur vinnslan vel. Síldin er ýmist flökuð eða heilfryst og er unnið úr um 700 tonnum á sólarhring.