Vegna óhagstæðs veðurs á makrílslóðinni hélt Börkur NK til síldveiða í gærmorgun. Vaktavinnufólk í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað fékk frí í gær og í dag en ráðgert er að vinnsla hefjist á ný í fyrramálið. Heimasíðan hafði samband við Hjörvar Hjálmarsson skipstjóra á Berki í morgun og spurði frétta. „Við erum að dæla og höldum í land að því loknu. Þetta er líklega um 300 tonna hol og við verðum komnir með um 900 tonn að dælingu lokinni. Aflinn fékkst í þremur holum í Holunni í Reyðarfjarðardýpi. Það er dálítið af síld að sjá. Það er ekki mjög mikið lóð en þetta gefur mjög vel. Síldin er hin fallegasta – 360-370 gr síld sem hentar örugglega vel til vinnslu. Það var bræla þegar við komum út í gær en veðrið í nótt var hið fínasta. Nú er hins vegar veðrið að versna. Ég reikna með að farið verði á ný á makríl þegar veðrið batnar seinna í vikunni,“ sagði Hjörvar.