Ekkert fer á milli mála að hinn nýi Börkur NK er eitt glæsilegasta skip íslenska fiskiskipaflotans. Skipið liggur í Norðfjarðarhöfn og er keppst við að gera það klárt til loðnuveiða. Í morgun var meðal annars unnið að því að mála nýtt nafn og einkennisnúmer á skipið en loðnunót var tekin um borð í gær og reyndar kastað í tilraunaskyni í Norðfjarðarflóanum í gærkvöldi.

Skipið hefur ekki  verið sýnt almenningi enda öll áhersla lögð á að koma því á veiðar enda mikilvægt að ná þeirri loðnu sem eftir er að veiða svo hún nýtist til hrognatöku og skili sem mestum verðmætum. Gert er ráð fyrir að skipið verði almenningi til sýnis síðar.

Þeir sem átt hafa erindi um borð í nýja Börk láta mikið af því hvað skipið sé vel búið og sérstaklega er dáðst að aðbúnaði áhafnarinnar. Það er sama hvert er litið; klefarnir eru notalegir, setustofan hlýleg, matsalurinn eins og á nútímanlegu veitingahúsi og vinnuaðstaða öll eins og best verður á kosið. Hér á eftir eru birtar nokkrar myndir sem teknar eru í skipinu og sýna þær aðstæður sem áhöfnin býr við.