Síðdegis í gær hélt Börkur NK til kolmunnaveiða í færeysku lögsögunni og verður hann kominn á miðin austur af Færeyjum í nótt. Heimasíðan ræddi við Hálfdan Hálfdanarson skipstjóra í morgun og sagði hann að spáð væri góðu veðri á miðunum næstu daga og full ástæða væri til að notfæra sér það. „Það hafa nokkrir færeyskir og íslenskir bátar verið að veiðum þarna síðasta mánuðinn eða svo. Þarna hefur ekki verið nein kraftveiði en þokkalegt nudd þegar viðrar. Það er um að gera að nota tækifærið þegar veðurútlit er jafn gott fyrir næstu daga og nú er. Í kolmunnanum er oft mikill dagamunur á veiði en almennt má gera ráð fyrir að það verði togað lengi og einungis eitt hol tekið á sólarhring,“ sagði Hálfdan.