Börkur NK í Neskaupstað í morgun.Í morgun kom Börkur NK með fyrsta farminn af síld og makríl til vinnslu í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar í Neskaupstað á yfirstandandi vertíð. Aflinn er samtals um 420 tonn, um 270 tonn af makríl og um 150 tonn af síld. Vaktir hafa verið settar á í fiskiðjuverinu og gera menn ráð fyrir nær samfelldri vinnslu næstu vikurnar. Beitir NK hélt til veiða í nótt og Bjarni Ólafsson AK mun halda til veiða í dag en ásamt Berki munu þessi skip landa afla til vinnslu í fiskiðjuverinu.

Sigurbergur Hauksson skipstjóri á Berki segir að aflinn á þessu sinni hafi fengist á Hvalbakshalli og austur af Þórsbanka.  Þarna hafi Börkur verið að veiðum ásamt Vilhelm Þorsteinssyni EA og Kristinu EA. Önnur skip voru miklu vestar að veiðum. Að sögn Sigurbergs var ekki mikið að sjá á þessum slóðum miðað við sama tíma í fyrra en það á eftir að leita betur og ástand á miðunum getur verið býsna fljótt að breytast. Það var fínn fiskur sem Börkur kom með að landi; meðalvigt makrílsins er á milli 380 og 390 grömm og meðalvigt síldarinnar 310 grömm.