Börkur NK kom um hádegi í dag til Neskaupstaðar með fyrsta kolmunnafarminn á vertíðinni. Ljósm. Hákon Viðarsson.Upp úr hádeginu í dag kom Börkur NK með fyrsta kolmunnafarminn á vertíðinni til Neskaupstaðar. Afli skipsins er 1.600 tonn og fer hann til mjöl- og lýsisvinnslu. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri sagðist trúa því að þetta væri byrjunin á góðri vertíð enda eigi að vera mikill kolmunni í hafinu og kvótinn mikill. Þá sagði hann að veiðar hefðu gengið vel á nýju skipi en á meðan löndun færi fram yrði ýmislegt smávægilegt sem tengist togveiðibúnaði þess lagfært. Hjörvar lýsti fyrstu veiðiferð kolmunnavertíðarinnar þannig: „Við hófum veiðar sunnan við Rockall-svæðið utan írskrar lögsögu en þar hafði veiðst vel áður en við komum þangað. Eftir að við komum fjöruðu veiðarnar út hægt og bítandi og síðasta holið, 230 tonn, tókum við sunnan í Færeyjabanka. Það er ljóst að hrygningarfiskurinn er ekki enn genginn inn í færeyska lögsögu svo neinu nemur en það mun sennilega gerast á næstu 7-10 dögum og þá má gera ráð fyrir að kraftveiði hefjist. Fiskurinn er á leið norður eftir á fæðustöðvar að lokinni hrygningu“.

Þegar þetta er ritað er Beitir kominn með 1.400 tonn af kolmunna og var að kasta, Bjarni Ólafsson var að fylla sig og Polar Amaroq var að veiðum. Þessi skip munu væntanlega koma til löndunar á næstu dögum.